Að berjast fyrir bættri dýravelferð varðar okkur öll. Ég fagna því þegar málleysingjarnir hafa rödd sem hefur hátt og berst fyrir bættu samfélagi fyrir dýrin okkar. Þar er af mörgu að taka og margt sem er í ólagi bæði gagnvart dýrunum sjálfum og eigendum gæludýra en þar er veruleg brotalöm í kerfinu. Það er efni í annan pistil sem von er á síðar.
Nýverið birti Dýraverndunarsamband Íslands frétt á heimasíðu sinni þess efnis að farið var á fund með Atvinnuvega og Nýsköpunarráðuneytinu. Í fréttinni er eftirfarandi skrifað
„ Nýverið fóru formaður og stjórnarmaður DÍS á tvo fundi með Atvinnuvega og Nýsköpunarnefnd til að veita umsögn um velferð dýra. Þar var m.a fjallað um innflutning á gæludýrum, mörkun lamba, drekkingu villtra dýra og eftirlit við fiskeldi. Þarna eru í raun dæmi um ýmis dapurleg mál, þar sem dýr eru með samþykki löggjafans látin líða sársauka eða þjáningarfullan dauða sem við nánari skoðun er fyrst og fremst í þágu fjárhagslegra hagsmuna “
Við eigendur Mósels hörmum þetta orðalag og viljum koma eftirfarandi á framfæri.
Við fórum af stað fyrir 4 árum síðan í hönnun á nýrri einangrunarstöð með það að yfirlýstu markmiði að uppfylla ekki bara lágmarksskilyrði laga heldur uppfylla þarfir dýra á meðan á einangrunarkrafa er enn við lýði. Í því fólst að hanna, byggja og reka einangrunarstöð sem er hönnuð til að uppfylla kröfur sínar sem sóttvörn ásamt því að dýrin fái allt sem þau þurfa og meira til. Þar til í mars á þessu ári var reglugerð um einangrunarstöðvar á þann hátt að vistarverur dýra voru í stærð sem voru ólöglegar samkvæmt nýjum dýravelferðalögum sem tóku gildi og samþykkt voru 2016. Meginmunurinn liggur í kröfu um stærð vistarvera miðað við stærð dýra. Dæmi um það er að í brottfelldri reglugerð er kveðið á um að búrastærð fyrir hunda frá 65 cm á herðakamb skuli svefnhluti vera 3m2 og útisvæði 8,4 m2. Í lögum um velferð gæludýra er lágmarksstærð hvíldarhluta 5,5 m2 og útisvæði 20 m2.
Mósel er byggt og starfar eftir nýjum dýravelferðarlögum án þess að hafa þurft þess – en við erum hjartanlega sammála Dýraverndunarsambandi Íslands að lágmarksaðbúnaður á ekki að vera viðmiðið. En þetta fól meðal annars í sér minni „hagnað“ af fyrirtækjarekstri þar sem við tókum inn færri dýr en við hefðum þurft, einmitt vegna dýravelferðarsjónarmiða en ekki gróðrarsjónarmiða.
Þetta er einungis eitt dæmi um mismunin á brottfelldri reglugerð og þeirri sem tók gildi 9. Mars síðastliðinn. Ég hvet fólk til þess að kynna sér muninn á þessum atriðum og aldrei slaka á kröfum um dýravelferð og annað sem tengist umönnun og aðbúnað dýra – allra dýra. Það á jafnframt ekki að vera „bara“ nóg að vistarverur dýra séu af ákveðinni stærð heldur þarf fyrst og fremst að sinna dýrum í einangrun á þann hátt að þeim líði vel og geti strax farið í umhverfi sem tekur við þeim af þekkingu á atferli hegðun og líðan. Samhliða því þarf að heilsufarsskoða dýrin og mikilvægt er að þar starfi dýralæknir sem hefur gott innsæi og góðan hæfileika til að tala við eigendur dýra og þjálfara stöðvarinnar. En andleg og líkamleg líðan er einn og sami hluturinn. Ef dýr eru undir álagi þarf að meðhöndla það heildstætt, og þá skiptir litlu hvort búrastærð sé 20 fermetrar eða 200.
Við erum sífellt að skoða, breyta og bæta okkar rekstur því með meiri reynslu kemur meiri þekking. Það hefur lengi verið kallað eftir breyttu verklagi varðandi aðbúnað dýra í einangrun og er það ein ástæða þess að við fórum af stað, fórum af stað með þá hugsjón og markmið að á meðan einangrunarkrafa er við lýði ætlum við að gera betur en vel og miklu betur en lágmarkskröfur. Það hefur verið bent á að aðskilnaður gæludýra frá fjölskyldum sínum geti reynst dýrunum erfitt. Það er i undantekningatilfellum sem það er reynslan, engu að síður höfum við aldrei og munum ekki setja okkur á móti því að fólk fái að heimsækja dýrin í einangrun. Það væri einfalt að framfylgja þeim óskum og væri það skref í rétta átt ef mat þjálfara og eiganda væri á þann hátt að það væri nauðsynlegt. Það væri einnig skref í rétta átt að þau dýr sem væru að koma til nýs eiganda að sá eigandi myndi líka koma í heimsókn í einangrun til að umskiptin yrðu auðveldari. Þetta eru bara nokkur dæmi um hvað okkur í Móseli finnst að gera mætti meira og öðruvísi, en markmið okkar allra ætti alltaf að vera það sama, að dýrunum okkar líði vel – alltaf.
Ég læt staðar numið hér og tek fram að orðalagið fréttarinnar er óheppilegt en málstaðurinn nauðsynlegur og vinnan betri. Drekkingar á dýrum á aldrei að líðast, mörkun lamba er tímaskekkja og við hvetjum DÍS til að halda áfram sinni góðu vinnu. Við bjóðum hér formlega Dýraverndunarsambandi Íslands í heimsókn til okkar við tækifæri til frekara spjalls um hvernig starfsemi okkar er háttað og hvað hægt er að gera til að gera betur í einangrunarmálum á Íslandi.
Bestu kveðjur
Jóhanna og Ingvar eigendur Mósels
Comments